Nýir og spennandi möguleikar með K3 

Júní 2015

Miklar breytingar fylgja nýju kynslóðinni af Mentor - K3 þar sem tekið er mið af helstu breytingum nýrrar aðalnámskrár. Margir skólar hafa þegar látið opna fyrir nýju kynslóðina og eru búnir að sækja námskeið til að undirbúa sig fyrir breytingarnar sem framundan eru. Öllum er ljóst að það er mikil vinna framundan í skólunum og ekki eingöngu spurning um að kennarar tileinki sér nýja tækni heldur er um umfangsmiklar kennslufræðilegar breytingar að ræða.

Við hvetjum skólana til að styðja kennara sérstaklega vel á þessum tímamótum og gefa þeim tækifæri til að prófa sig áfram með nýjar hugmyndir sem allar stefna að því að undirbúa nemendur sem best til að takast á við áskoranir lífsins.

Nýtt á komandi skólaári

Ýmsir skemmtilegir möguleikar verða í boði á komandi skólaári. Má þar nefna samþættingu við Google eða Office 365, kannanir og rafræn próf, vinnumat kennara og nýr Mentor fyrir leikskóla. Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur þessa möguleika og sjá hvað hentar ykkar skóla.

Google og Office 365
(Fyrir K3 notendur)

Samþætting bæði við Google og Office 365 er nú í boði fyrir þá sem eru farnir að nýta sér K3. Þar gefst tækifæri til að samþætta við Mentor dagatal, One Drive, Google Drive, tölvupóst og singel-sign-on (notandi þarf eingöngu að skrá sig einu sinni inn og hefur þá aðgang að Mentor og Google eða Office 365).

Kannanir og rafræn próf
(Fyrir K3 notendur)

Á nýju skólaári bætist við sá möguleiki að kennarar geti lagt fyrir kannanir og rafræn próf í Mentor. Hægt er að leggja þau fyrir bæði nemendur og aðstandendur. Mögulegt verður að leggja fyrir próf þar sem niðurstöður liggja fyrir í lokin og eru sýnilegar nemandanum.

Mentor fyrir leikskóla

Í ágúst kemur ný kynslóð af Mentor fyrir leikskóla. Hún inniheldur m.a. vistunáætlun, tímalínu, námsmöppu (portfolio), áætlanir og skráningar fyrir hvert barn ásamt einfaldri leið til að miðla skilaboðum á milli skóla og heimila.

Nýtt vinnumat kennara

Í kjölfarið á nýjum samningum var farið að smíða nýtt vinnumat inni í Mentor sem verður aðgengilegt strax í byrjun ágúst. Þessa dagana erum við að fá KÍ og Samband íslenskra sveitarfélaga til að yfirfara nýsmíðina til að tryggja að allt sé eins og það á að vera.